Beint í efni

19. mars 2020

Námskeið með fjarfundarbúnaði

Nú er svo komið að öll námskeið dk hugbúnaðar verða einnig kennd á netinu, með fjarfundarbúnaði frá og með 14. apríl n.k.

Kennsla með fjarfundarbúnaði hefur verið til prufu síðustu vikur hjá dk hugbúnaði og reynst mjög vel.

Hægt er að tengja allt að 100 aðila í einu við fjarfundarbúnað dk. Það eina sem nemendur þurfa að hafa er þokkaleg tölvutenging, hátalari og míkrafónn auk tölvunnar sinnar. Með þessum fjarfundarbúnaði er bæði hægt að bregðast við vandamálum sökum Covid-19 veirunnar og stórauka þjónustu við þá aðila sem ekki hafa tök á að koma til höfuðborgarsvæðisins á námskeið.

Jónas Yngvi Ásgrímsson hjá dk segir frá:

„Frá stofnun dk hugbúnaðar hefur fyrirtækið staðið fyrir kennslu á öll forrit dk. Þessi námskeið hafa tekið bestan part af viku í hverjum mánuði og hefur fjöldi notenda dk komið til okkar og lært betur að nota kerfið. Námskeiðin hafa verið kennd af starfsmönnum þjónustudeildar dk. Undanfarið ár höfum við verið að vinna í því að koma okkur upp hugbúnaði og tækjum til að geta kennt námskeiðin á vefnum. Okkar hugsun var að geta kennt í kennslustofu okkar að Smáratorgi 3 og sent út um leið til þeirra sem ættu ekki eins auðvelt með að koma til okkar.

Þessi undirbúningur skilaði sér síðan vel þegar við þurftum, mánuði áður en við áætluðum, að kenna öll okkar námskeið á netinu. Þegar ljóst var að útbreiðsla Covid-19 veirunnar var með þeim hætti að ekki væri forsvaranlegt að kenna í kennslustofu drifum við okkur í að klára undirbúning vefkennslunnar. Við settum upp kennsluhugbúnað frá Zoom þar sem við getum tengst allt að 100 manns í einu og eina sem þeir þurfa að hafa er þokkaleg tölvutenging, hátalari og míkrafónn auk tölvunnar sinnar.“

„Við höfum tekið fyrstu kennsluvikuna á vefnum til prófunar með okkar viðskiptavinum og viðtökurnar hafa verið vægast sagt góðar. Viðskiptavinir okkar hafa verið ánægðir með þessa nýjung og starfsmenn dk eru að venjast breyttu vinnulagi. Það munar talsvert á vinnulagi að sitja og tala við tölvuna eða að vera með hóp í kennslustofu þar sem meira er um samskipti. Þessi fyrsta vika okkar lofar hins vegar góðu og ljóst að þessi kennsla er komi til að vera, annað hvort ein og sér eða í bland með kennslustofu.“

Förum vel með okkur og munum eftir sápunni og sprittinu.

Jónas Yngvi Ásgrímsson

Dagsetning
19. mars 2020
Deila