Beint í efni

19. apríl 2023

Hugbúnaðarrisi kaupir Five Degrees

Alþjóðleg samstæða hugbúnaðarfyrirtækja, sem á m.a. dk hugbúnað, hefur náð samkomulagi um kaup á íslenska-hollenska fyrirtækinu Five Degrees.

 

Hollenska fyrirtækið Topicus.com hefur náð samkomulagi um kaup á íslenska-hollenska hugbúnaðarfyrirtækinu Five Degrees, sem var stofnað af Birni Hólmþórssyni og Martijn Hohmann árið 2009. Viðskiptin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Topicus er móðurfélag Total Specific Solutions (TSS) sem keypti DK hugbúnað árið 2020. Þá er Topicus hluti af kanadísku samstæðunni Constellation Software Inc. sem er skráð í kanadísku kauphöllina. Samstæðan hefur eignast yfir 500 hugbúnaðarfyrirtæki í gegnum tíðina sem eru mörg rekin áfram sem sjálfstæðar einingar.

Five Degrees þróar bakvinnslukerfi fyrir banka og önnur fjármálafyrirtæki og leggur áherslu á sjálfvirknivæðingu bankaferla og reikningakerfa. Fyrirtækið keypti íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Libra árið 2018, sem hafði þróað lausnir á sviði lána- og verbréfaumsýslu.

„Five Degrees hefur vaxið hratt undanfarin ár en við teljumst þó vera meðalstórt fyrirtæki í þessum geira. Núna verðum við hluti af stórri einingu og getum þá notað okkar kerfi og íslenskt hugvit til þess að keppa við stóru aðilana á markaðnum. Við erum fara í úrvalsdeildina ef svo má segja,“ segir Björn í samtali við Viðskiptablaðið.

Hátt í hundrað manns starfa hjá Five Degrees á Íslandi, bæði í Kópavogi og á Akureyri, en bróðurparturinn af þróunarvinnu fyrirtækisins fer fram hér á landi. Five Degrees er einnig með skrifstofur í Amsterdam, Lissabon og Novi Sad.

Five Degrees á Íslandi aðskilin eining

Með viðskiptunum er stefnt að því að aðskilja Five Degrees á Íslandi frá alþjóðlegu starfsemi fyrirtækisins. Íslenska fyrirtækið verður rekið sem sjálfstæð eining innan samstæðunnar en alþjóðlega starfsemi Five Degrees mun renna inn í Topicus sem dótturfyrirtæki.

Björn segir að töluverð samlegðartækifæri séu fólgin í að alþjóðlegi hluti Five Degrees falli undir Topicus, sem sérhæfir sig í að miklu leyti í fjármálageiranum. Hann bendir jafnframt á að þetta fyrirkomulag hafi í för með sér að ekki verði stór breyting á starfsemi félagsins hér á landi og ætti því ekki að hafa mikil áhrif á íslenska viðskiptavini.

„Topicus og Constellation eru þekkt fyrir að kaupa hugbúnaðarfyrirtæki, líkt og dk hugbúnað, og leyfa þeim að halda áfram á sinni vegferð og gera það sem þau vilja undir ákveðnum viðmiðum. Jafnframt geta þau leitað til samstæðunnar ef þörf er á auknu fjármagni. Annars eiga þau bara sitt eigið líf.“

Hjálpar Five Degrees með stærri kúnna

Viðræður Five Degrees og Topicus hafa staðið yfir í nokkra mánuði að sögn Björns. Hann segir að viðskiptin geti m.a. aðstoðað Five Degrees þegar kemur að stærri kúnnum. Yfir 40 bankar, þar á meðal kanadíska bankasamstæðan TD Bank Group, belgíski bankinn Argenta og hollenski bankinn ABN Amro, styðja sig við bakvinnslukerfi fyrirtækisins.

„Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu því það hefur reynst erfitt í sumum tilfellum að fá stærri kúnna til að leyfa okkur taka meiri ábyrgð hjá sér. Það er mjög erfitt að vera með lítinn efnahagsreikning og stóra viðskiptavini. Þetta hjálpar okkur heilmikið hvað það varðar.“

Sjá greinina í heild sinni hér

Grein í Viðskiptablaðinu.
Birt: 13. apríl 2023. 

Dagsetning
19. apríl 2023
Deila