Beint í efni

20. mars 2023

Bryndís Kolbrún ráðin árangursstjóri

Bryndís Kolbrún Sigurðardóttir hefur tekið við starfi stjórnanda viðskiptatengsla bókhalds- og endurskoðendaskrifstofa, Customer Success Manager (CSM), hjá dk hugbúnaði en staðan er ný hjá fyrirtækinu.

Hún mun bera ábyrgð á að þróa jákvæða upplifun viðskiptavina og standa vörð um samband dk hugbúnaðar við bókhalds- og endurskoðendaskrifstofur. Bryndís mun vinna náið með sviðsstjóra þjónustu og ráðgjafadeildar og sjá um að tryggja velgengni viðskiptavina með árangursdrifnum viðskiptatengslum.

Bryndís hefur viðamikla þekkingu af þjónustu og ráðgjöf víðs vegar að. Hún hóf störf hjá fyrirtækinu í ágúst á síðasta ári. Bryndís er með B.Sc. í viðskiptafræði og M.Sc í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst ásamt kennsluréttindum. Áður en Bryndís kom til liðs við dk starfaði hún við kennslu og umsjón á unglingastigi í 6 ár en einnig hefur hún reynslu af vinnu á bókhaldsstofum, þjónustu og við verkefnastjórnun.

,,Ég er gífurlega spennt að takast á við ný verkefni og kynnast viðskiptavinum okkar betur. Ég hlakka til að vera í beinu sambandi við bókhalds- og endurskoðendaskrifstofur sem er okkar stærsti viðskiptavinahópur.”

,,Ég hlakka mikið til að nýta mína reynslu og þekkingu í að móta þetta nýja hlutverk á þeirri vegferð sem framundan er hjá fyrirtækinu.” segir Bryndís.

Kristín Þorgeirsdóttir, sviðsstjóri ráðgjafar og þjónustu dk: „Þessi breyting er partur af stærri heild breytinga sem munu verða hjá okkur á næstunni til að bæta þjónustustigið. Viðskiptavinir okkar, sem eru í dag yfir 7000 fyrirtæki, munu vonandi finna breytingu til góða á næstu vikum og mánuðum.

Bryndís er með frábæra reynslu og þekkingu sem mun nýtast vel í þessu nýja hlutverki. Hún er skipulögð og einstaklega þjónustulunduð. Frá upphafi vega hefur dk átt í miklu og góðu samstarfi við bókhalds- og endurskoðendaskrifstofur. Með skilgreindu starfi viðskiptatengsla við bókhalds- og endurskoðendaskrifstofa sjáum við fram á að geta veitt bókhalds- og endurskoðendaskrifstofum upplýsingar og þjónustu við hæfi sem stuðlar að heilbrigðu viðskiptaumhverfi fyrir alla.“

dk hugbúnaður hefur selt einn vinsælasta viðskiptahugbúnað landsins í aldarfjórðung. Alhliða viðskipta- og upplýsingakerfi, sem er þróað á Íslandi fyrir íslenskar aðstæður og er leiðandi á sínu sviði fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki. Fyrirtæki sem nota dk viðskiptahugbúnaðinn eru úr flestum atvinnugreinum og eru nú um sjö þúsund talsins og fjölgar jafnt og þétt. Hjá dk hugbúnaði starfa rúmlega 60 manns við hugbúnaðargerð og þjónustu.

Dagsetning
20. mars 2023
Deila